Á þriðjudeginum 18. nóvember lá leið mín á mitt fyrsta NTM sem að þessu sinni var haldið í New York. Því var töluverð tilhlökkun hjá mér þegar ég mætti upp á flugvöll, ekki síst vegna þess að þetta var í fyrsta skipti sem ég fer til Bandaríkjanna. Ég hafði sótt um og fengið ferðastyrk Round table til þess á fara á þennan fund. Ég fór á þriðjudegi, sem var snemmt, þar sem ég vildi meiri tíma til að skoða borgina.
Eftir að hafa hlustað á margar sögur af ferðum teiblara erlendis þá vissi ég að það væri venjan að gefa erlendum teiblurum eitthvað íslenskt að drekka. Ég var alveg sannfærður um að allir hinir Íslendingarnir myndu kaupa Íslenskt brennivín þannig og ég vildi ekki vera alveg eins og endaði með að kaupa tvær kippur af hinum stórgóða Einstök bjór í fríhöfninni. Maggi félagi minn sem er í sexunni var í sömu flugvél ásamt maka sínum henni Möggu (M&M) en flestir Íslendinganna áttu svo flug á miðvikudeginum og síðustu menn á fimmtudeginum. Samtals vorum við Íslendingarnir held ég 16 með mökum og öll Landsstjórnin var að sjálfsögðu skráð til leiks.
Við Maggi og Magga enduðum á því að taka saman leigubíl frá flugvellinum og upp á hótel. Ég átti reyndar ekki bókað fyrstu tvær næturnar á teiblarahótelinu heldur á lágstéttarhótelinu Hotel Pennsylvania sem er öðruvísi hótel en maður er vanur. Það var eins og það væri ekkert búið að viðhalda hótelinu í 40-50 ár fyrir utan lobbýið sem leit ágætlega út. Ég hef aldrei á ævinni beðið jafn lengi í biðröð til að tékk mig inn eins og þarna. Ég var mættur um kl 20 upp á hótelið og eina markmið kvöldsins var að labba upp að Times Square og skoða og fá sér kannski einn ískaldann.
Miðvikudagur
Dagurinn var þaulskipulagður enda var förinni heitið í Jersey Gardens Outlet verslunarmoll sem, þýddi 30 mínútna strætóferð og þar ætlaði ég að eyða deginum. Það er reyndar hægt að mæla með þessarri strætóferð því þetta var eina skiptið sem ég sá Manhattan úr fjarlægð þar sem ég klikkaði á siglingu sem er auðvitað málið ef maður hefur ekki efni á þyrluferð. Meðfylgjandi er töluvert ýkt útgáfa af útsýninu sem ég fékk.
Karlinn var með langan verslunarlista sem var fullur af jólagjöfum og svo átti að finna sér jakka og frakka. Magnús og frú ætluðu líka í mollið og eftir dugnað morgunsins, þegar ég settist niður í hádeginu að fá mér einn ískaldann og eitthvað að snæða þá átti ég í símasamræðum við Magga. Ég ætlaði að fá þau á veitingastaðinn í mollinu sem ég var á en eftir nokkur skeyti þar sem Maggi var ekki að finna veitingastaðinn þá kom í ljós að þau voru stödd í allt öðru molli en ég var á.
Eftir innkaup dagsins, þar sem mér tókst að fylla ný keypta tösku sem var stærri en stóra taskan sem ég fór með út, þá var förinni heitið á veitingastaðinn Dallas Barbeque þar sem ég hitti þau hjú loksins aftur. Þar er fínn matur og boðið upp á hrikalega góða kokteila sem örugglega margir kannast við. Kvöldið endaði á því að við kíktum á hótelbarinn á spjallið en um kvöldið bættist töluvert í hóp Íslendinga.
Fimmtudagur
Ég vaknaði sprækur um morguninn enda búinn að standa mig vel að hlýða konunni sem sagði mér að slappa vel af og sofa vel, enda búinn að glíma við ungbarnaveiki í einn og hálfan mánuð. Það átti þó eftir að breytast. Nú var komið að því að yfirgefa almúgahótelið og færa sig yfir á teiblara hótelið sem var bara í 400 metra fjarlægð. Ég og M&M höfðum óljóst rætt um að kíkja daginn eftir á Ground Zero í skoðunarferð. Ég vildi samt helst leyfa þeim að vera í friði og ákvað því að fara með hópi erlendra teiblara sem ég hitti í lobbýinu. Þetta voru nokkrir Danir, Hollendingur og þjóðverji og í þessari ferð kynntist ég fyrst selfie stick sem síðar fékk íslenska heitið langastöng og var svaka hitt í þessari ferð. Þetta var frábær ferð sem skilaði allnokkrum teiblurum á Facebook vinalistann. Ég mun örugglega snúa upp á höndina á einhverjum þeirra varðandi heimagistingu á næstu árum.
Það er óþarfi að blaðra mikið um Ground Zero en það var hinsvegar nýbúið að opna 9/11 Memorial safnið sem nauðsynlegt er að heimsækja enda ótrúlegir hlutir sem gerðust þarna í turnunum tveimur. Við enduðum túrinn á því að skoða líka Wall street og China Town, fengum okkur hádegismat og sötruðum nokkra bjóra.
Um kvöldið var kominn tími á welcome party sem var fyrsti skipulagði dagskrárliðurinn fyrir utan pretourinn sem var víst mjög flottur. Rétt fyrir partýið þá mætti loksins herbergisfélagi minn hann Árni í sexunni en við tveir þekkjumst vel. Partýið sjálft var slakt því eftir biðröð til að komast inn í skítakulda þá var þetta of lítill skemmtistaður með of hárri tónlist þannig að það var ekki hægt að teibla og kynnast öðrum. Íslenskir skipuleggjendur (sexu menn) mega gjarnan notera þetta hjá sér enda algjörlega nauðsynlegt að geta spjallað á þessum tíma. Ég komst aldrei í góðan fíling þarna en samt voru menn að fá sér eitthvað fram eftir og fórum við nokkrir íslendinganna á Írskan pub áður en menn fóru í koju. Með okkur var Guðjón landsforseti sem var “last man standing” af landstjórum og stóð hann fyrir kaupum á Bloody Mary sem átti að hjálpa okkur fyrir morgunfundinn.
Föstudagur
Landstjórninni tókst auðvitað að sannfæra okkur um að mæta á morgunfund snemma á föstudeginum. Við (Maggi og Árni) vissum ekkert um fundinn en vorum spenntir að sjá hversu hressir þessir fundir væru í svona ferðum. Ég man nú ekki mikið eftir því sem fram fór á fundinum en þetta var bara íslenska stjórnin og það var bjór í boði. Fundarefnið var ekki spennandi. Við snæddum síðan hádegismat með dönsku landsstjórninni í stað þess að fara í lestarferð á einhvern ítalskan pizzastað eða pastastað sem var innifalin í pakkanum. Restin af deginum fór í að skoða American Museum of Natural History með Árna og M&M.
Um kvöldið var síðan svaka fínt föstudagspartý á flottum Írskum stað sem fór þó ekkert allt of vel af stað. Þegar við komum á staðinn sem var mjög stór þá var hann þétt setinn. Ég held að hann hafi verið hálffullur af venjulegu fólki (sem er ekki í Roundtable!) þegar teblara hópurinn upp á ca 280 manns mættu á staðinn. Við stóðum því eins og illa gerðir hlutir til að byrja með en þetta reddaðist allt. Eftir nokkra úrvals þýska hveitibjóra og spjall og stuð þá endaði kvöldið með að flestir voru farnir að dilla sér á dansgólfinu. Sérstaklega þegar þunga rokkið var sett á fóninn.
Laugardagur
Vaknaði allt of snemma til að fara á NTM fundinn sem byrjaði kl 9 að mig minnir, var þó eðlilega seinn. Af hverju þurfa þessir fundir alltaf að byrja svona snemma? Á þennan fund mætti ég með Einstök bjórinn en það hafði aldrei myndast góður tími til að koma honum út. Á þessum tímapunkti var nú samt nokkuð gengið á þá og ca ein kippa eftir. Þar var hins vegar enginn vettvangur sem hentaði í að gefa þennan bjór. Ég reyndi að dreifa honum um fundarsalinn en það voru ekki allir á því að fá sér bjór strax. Fann þó nokkra þyrsta íslendinga og tókst að gefa aðal BandarIkjamanninum honum Robert einn bjór sem hann þáði með þökkum. Eftir hádegi fórum við Árni og M&M t.d. á Red lobster og fengum okkur dýrindis humar, bjór og kokteil.
Um kvöldið var síðan aðal kvöldið með gala dinner og öllu tilheyrandi. 280 manns í salnum í fínum hótelsalnum. Menn rigguðu upp smóking gallanum og ásinn klikkaði nú ekki á því. Gala dinnerinn var mjög skemmtilegur, svona ekta árshátíðarstemming og mikið spjallað. En þegar gleðin stóð sem hæst um kl 00.30 þá átti ballinu að ljúka og þeir sem vildu halda áfram áttu að fara á einhvern næturklúbb. Það voru ekki allir á því og þar á meðal við Íslendingarnir og eftir að DJ-inn fór þá greip Árni snillingur til síns ráðs og hélt tónlistinni gangandi í salnum með símanum, spotify, bluetooth hátalara og hlóðnema salsins sem var tengdur hátalarkerfinu. Þannig hélt Árni hlóðnemanum, og hátlaranum þétt saman og dillaði sér við músíkina og hélt þannig stuðinu gangandi í nær klukkustund í viðbót. Þetta var legendary snilld.
Sunnudagur
Dagurinn hófst með brunch á ameríska dinernum í lobbíi hótelsins sem var innifalið í helgarpakkanum. Síðan var ferðinni heitið í Central park göngutúr með M&M í frábæru veðri sól og blíðu eftir skítakulda í byrjum ferðar. Dagurinn endaði síðan á því að ég labbaði allt 5th Avenue og upp á hótel og beint upp á flugvöll.
Þar með lauk þessari skemmtilegu ferð á NTM 2014. Þegar á heildina er litið þá tókst ásunum í New York að skipuleggja ágætis NTM þó ýmislegt hefði betur mátt fara eins og talið var upp hér að framan. Danirnir eiga síðan heiður skilinn fyrir að mæta um 120 manns á fundinn en þeir charteruðu einmitt ásana í New York og ákváðu því að fjölmenna. Einnig fannst mér skipuleggjendur nær ósýnilegir því ég hitti bara og sá tvo þeirra, hann Martein okkar og svo hann Robert sem margir þekkja. Að lokum má gagnrýna að þeir voru búnir að lofa að taka á móti okkur upp á flugvelli og fannst okkur Magga það skrítið þegar enginn tók á móti okkur tveimur. Flugvöllurinn er nú ekki langt frá borginni.
Ykkar í teibli,
Garðar Hólm Kjartansson
RT-1