Ágætu Teiblarar,
Margir ykkar eru nú búnir að vera í góðu sumarfríi frá Teiblinu á meðan aðrir hafa verið að hittast í góðu Teibli með vinum og fjölskyldum úr Round Table. Einhverjir hafa farið á Euromeeting eða Númeramót eins og þau kallast á góðri íslensku og skemmt sér vel í alþjóðateibli með nýjum sem og gömlum vinum. Útilegur byrjuðu strax á fullum krafti í júní þegar fjölmennt var í árlegu Round Table útilegunni í Varmahlíð sem var haldin í umsjón RT4, RT5 og RT7 manna. Frábær helgi í alla staði og eiga þeir stórt og mikið hrós skilið fyrir gott skipulag og gjafmildi þannig að ungir sem aldnir náðu að skemmta sér í besta félagsskap landsins alla helgina. Nokkrar útilegur fylgdu í kjölfarið og voru meðal annars Sexumenn með sínum fjölskyldum eina helgi á Flúðum. Fjölmennt var líka í garðinum hjá Hilmari Dúa á Húsavík yfir Mærudagshelgina og eflaust margir fleiri hittingar sem gaman verður að ræða þegar allir hittast aftur í haust. RT5 menn hafa einnig verið duglegir í sumar með flotta Vinarhornshittinga sem og vonandi RT3 líka. Allt er þetta nauðsynlegt í góðu jafnvægi yfir sumartímann svo menn mæti ferskir og ófeimnir inn í haustið þegar vetrarstarfið fer á fullt í öllum 16 klúbbum landsins.
Landstjórn hefur svo sannarlega ekki setið auðum höndum í sumar enda syngur Bubbi ágætt lag sem vitna má vel í störf okkar landstjórnar að „Sumarið er tíminn“ þegar allt er á fullu í alþjóðastarfinu. Tveir góðir landstjórnarfundir hafa verið haldnir til að taka á mörgum málum og ekki vanþörf á þegar tveir stærstu alþjóðafundirnir í Round Table eru í júní og ágúst ár hvert en þeir eru EMATM og RTIWM. Forsetahjónin ásamt dótturinni og Guðjón Andri IRO lögðu leið sína til Kýpur í enda júní þegar EMATM var haldinn. Þegar landstjórn fékk fréttir að enn væri hægt að sækja um EMATM 2017 var strax lagt upp með fyrir þá ferð að sækja um og lentum við í harðri kosningabaráttu við Ungverjaland sem voru svo sannarlega sigurvissir gegn smáþjóðinni Íslandi. Ekkert var gefið eftir og slógum við föruneytið í gegn með magnaðri kynningu frá Íslandi á Nations Night og videoi frá Elvari „Geisla“ í RT5 sem á okkar bestu þakkir fyrir. Eins og ég vona að allir hafi heyrt að þá tókum við þessa kosningu og skildum við Ungverjana eftir með sárt ennið og mun þessi fundur vera haldinn í Vestmannaeyjum í umsjón RT11 í sömu viku og Goslokahátíð þeirra heimamanna fer fram sem verður LEGENDARY. Einnig var kosið um næsta EMA formann og þá jafnframt sæti í alheimsstjórn fyrir árið 2015-2016 og var Saku Hyttinen góðvinur okkar frá Finnlandi fyrir valinu en sá sem hugði á framboð líka dró það til baka. Að auki er gaman er að segja frá því að RT Iceland, með Guðjón Andra IRO í fararbroddi sem fundarstjóra, stýrði NTM fundi sem haldinn var á Kýpur. Var þetta langskipulegasti fundurinn sem haldinn var af þeim þremur svæðum sem EMA skiptist upp í sem eru NTM, CTM og STM. Var alheimslandstjórnin virkilega ánægð með okkar framlag í Kýpur og virðumst við í RT Ísland vera stimpla okkur vel inní alþjóðastarfið með okkar áræðni og skipulag síðustu ára.
Í júlí fór svo Forseti og Varaforseti í kjölfarið af þessum tíðindum til Vestmannaeyja til þess að kynna fyrir heimamönnum hvaða stórviðburð við eigum fyrir höndum en EMATM hefur aðeins einu sinni áður verið haldinn hér á landi og það var á Akureyri 1997. Mikill hugur er í heimamönnun og nú þegar eru menn komnir á fullt með að bóka hótelherbergi og fleira. Búið er að negla niður ráðstefnustjóra sem mun vera Gulli Varaforseti og Guðjón Varaformaður RT11 mun vera aðstoðaráðstefnustjóri. Einnig var sett upp beinagrind að ráðstefnunefnd sem þeir félagar munu vinna hörðum höndum að skipa í. Þess má geta að framtíðarplan okkar er langt í frá að vera fullnægt því við höfum sett stefnu á að fá fyrsta íslenska Teiblarann í alheimstjórn árið 2017 en Gulli setur markið hátt og með stuðningi okkar allra þá fáum við hann kosinn inn sem EMA formann 2017-2018 sem er gríðarlega spennandi áskorun fyrir hann og okkur alla í hreyfingunni hér heima.
Nú í næstu viku fara Forseti, Varaforseti og IRO úr landstjórn ásamt Baldvini í RT3 til Visby í Svíþjóð á RTIWM eða alheimsráðstefnu RTI. Þar munum við halda áfram okkar kynningu á NTM, 45 ára afmæli RT1 og RTÍ og landskynningu á Nations Night þar sem meðal annars verður boðið upp Húskarla hangilæri frá Kjarnafæði og Eyjabita harðfisk frá Darra í Grenivík. Þökkum við þeim kærlega fyrir þann stuðning sem þeir veita landstjórn í ferðum sínum erlendis. Þar sem NTM er haldið í nóvember hér á landi í umsjón RT6 þá er hefð fyrir því að bjóða landstjórnum NTM þjóða í kokteilboð fyrir Galakvöldverð á RTIWM þannig að nóg er að skipuleggja. Í Visby verður einnig kosinn nýr Varaforseti alheimstjórnar en þeir sem eru í framboði þar eru góðir vinir okkar Íslendinga, annars vegar núverandi forseti Finnlands Kaj Kostiander og hins vegar Brett Tungay frá Suður Afríku og núverandi ritari alheimstjórnar sem innleiddi meðal annars Vinarhornið í RT5 Akureyri árið 2013 þegar undirritaður var formaður klúbbsins. Þetta verður spennandi kosning en RT Ísland á þarna góðan bandamann í báðum tilvikum þannig að við getum hlakkað til samstarfsins næstu árin sama hvor verður kosinn.
Já, sumarið er svo sannarlega tíminn til að Teibla og gleðjast yfir velgengni okkar enda hefur Round Table Ísland aldrei verið stærra hér á landi með yfir 270 virka félaga. Stórir viðburðir eru á næsta leiti þegar við komum saman helgina 3.- 6. september í 45 ára afmæli RT1 og hvet ég alla til að skrá sig sem fyrst á eftirfarandi slóð http://www.rt1reykjavik.com/. Annar fulltrúaráðsfundur 2015-2016 verður svo í umsjón RT16 á Fáskrúðsfirði helgina 9.-10. október og svo endar haustið á NTM alþjóðafundinum í umsjón RT6 dagana 19.-22. nóvember sem enginn má missa af, sjá allar upplýsingar á eftirfarandi slóðhttp://ntm2015.com/.
Ykkar vinur í Teiblinu,
Helgi Rúnar Bragason
Forseti RTÍ 2015-2016
FRIENDS FOREVER